Persónuverndartilkynning Google Payments

Síðast breytt 18. nóvember 2024

Persónuverndarstefna Google lýsir því hvernig við meðhöndlum persónuupplýsingarnar þínar þegar þú notar Google-vörur og -þjónustur. Ef þú ert notandi undir 18 ára aldri geturðu fundið viðbótarupplýsingar í Persónuverndarhandbók unglinga frá Google.

Google Payments er í boði fyrir Google-reikningshafa og öll notkun fellur undir persónuverndarstefnu Google. Þar að auki lýsir þessi persónuverndartilkynning vinnureglum Google varðandi persónuvernd sem eru sérsniðnar að Google Payments.

Notkun þín á Google Payments fellur undir gildissvið þjónustuskilmála Google Payments, sem lýsa nánar þeirri þjónustu sem fellur undir þessa persónuverndartilkynningu. Hugtök sem eru ekki skilgreind í þessum upplýsingum um persónuvernd bera þá merkingu sem þeim er gefin í þjónustuskilmálum Google Payments.

Persónuverndartilkynning Google Payments á við um þjónustu í boði Google LLC eða dótturfyrirtækja sem eru að fullu í eigu þess, þar á meðal Google Payment Corp. („GPC"). Kynntu þér þjónustuskilmála Google Payments sem þú getur nálgast innan þjónustunnar, til að sjá hvaða dótturfyrirtæki býður upp á viðkomandi þjónustu.

● Ábyrgðaraðili gagna fyrir notendur í Brasilíu er Google LLC og upp að því marki sem krafist er samkvæmt brasilískum lögum gæti það verið Google Brasil Pagamentos Ltda

● Ábyrgðaraðili gagna fyrir notendur (fyrir utan þá sem selja á markaðstorgi Google) innan Evrópska efnahagssvæðisins (fyrir utan Bretland) er Google Ireland Limited

● Fyrir notendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, fyrir utan Bretland, sem selja á markaðstorgi Google er ábyrgðaraðili gagna þinna Google Payment Ireland Limited

● Ábyrgðaraðili gagna fyrir notendur (fyrir utan þá sem selja á markaðstorgi Google) í Bretlandi er Google LLC

● Fyrir notendur í Bretlandi sem selja á markaðstorgi Google er ábyrgðaraðili gagna þinna Google Payment Limited

Upplýsingarnar sem við söfnum

Til viðbótar við þær upplýsingar sem taldar eru upp í persónuverndarstefnu Google kunnum við einnig að safna eftirfarandi:

Skráningarupplýsingar

Þegar þú stofnar reikning hjá Google Payments ertu að búa til Google-greiðsluprófíl sem er tengdur við Google-reikninginn þinn. Allt eftir því hvaða þjónustu Google Payments þú notar, til viðbótar við þær upplýsingar sem taldar eru upp í persónuverndarstefnu Google, færðu hugsanlega beiðni um að veita upplýsingar eins og:

● Kredit- eða debetkortanúmer og gildistíma kortsins

● Bankareikningsnúmer og gildistíma

● Heimilisfang

● Símanúmer

● Fæðingardag

● Sjúkrasamlagsnúmer eða auðkennisnúmer skattgreiðanda (eða önnur opinber skilríkjanúmer)

● Fyrir söluaðila og fyrirtæki sérstaklega, viðskiptaflokk og ákveðnar upplýsingar um sölu og viðskiptamagn

Í sumum tilfellum getum við líka beðið þig um að senda okkur viðbótarupplýsingar eða að svara viðbótarspurningum til að staðfesta upplýsingar eða auðkenni þitt. Að lokum, ef þú skráir greiðslureikning fyrir flutningsaðila eða símafyrirtæki, munum við biðja þig um ákveðnar upplýsingar um reikninginn þinn hjá viðkomandi flutningsaðila eða símafyrirtæki.

Skráningarupplýsingarnar þínar eru vistaðar í tengslum við Google-reikninginn þinn og skráning á greiðslumáta verður vistuð á netþjónum Google. Ákveðin gögn verða hugsanlega vistuð á snjalltækinu þínu.

Upplýsingar fengnar frá þriðju aðilum

Við fáum hugsanlega upplýsingar um þig frá þriðja aðila, þ.m.t. staðfestingarþjónustum þriðja aðila. Þar á meðal:

● upplýsingar fyrir Google Payments-færslur frá söluaðilum

● upplýsingar varðandi greiðslumátana þína og reikninga hjá þriðju aðilum sem tengjast Google Payments

● auðkenni kortaútgefanda eða fjármálastofnunar

● upplýsingar um eiginleika og fríðindi varðandi greiðslumátann

● upplýsingar varðandi aðgang að stöðu Google-greiðsluprófílsins þíns

● upplýsingar frá flutningsaðila eða símafyrirtæki í tengslum við innheimtu flutningsaðila eða símafyrirtækis

● viðskiptaupplýsingar samkvæmt skilgreiningu hugtaksins „viðskiptaupplýsingar" í bandarískum lögum yfir réttmætar upplýsingar um fjárhagsstöðu

● upplýsingar um færslur þínar með þriðju aðilum (eins og söluaðilum og greiðsluþjónustuaðilum), sem verða notaðar til að gera líkön af svikaáhættu og veita þriðju aðilum svikaáhættueinkunnir og aðra svikavarnarþjónustu

Hvað seljendur varðar getur verið að við fáum upplýsingar um þig og fyrirtækið þitt frá lánshæfisstofnun eða upplýsingaþjónustu fyrirtækja

Færsluupplýsingar

Þegar þú notar Google Payments til að gera færslu söfnum við hugsanlega upplýsingum um færsluna, þar á meðal:

● dagsetningu, tíma og upphæð færslunnar

● staðsetningu á söluaðilanum og lýsingu á honum

● lýsingu frá seljanda keyptra vara eða þjónustu

● þá mynd sem þú velur að tengja við færsluna

● nöfn og netföng seljanda og kaupanda (eða sendanda og viðtakanda) ● valinn greiðslumáta

● lýsingu þína á ástæðu færslunnar og tilboðinu sem tengist færslunni, ef við á

Hvernig við notum upplýsingarnar sem við söfnum

Til viðbótar við þá notkun sem talin er upp í persónuverndarstefnu Google notum við upplýsingarnar sem þú veitir okkur, Google Payment Corp. (GPC), eða öðrum dótturfyrirtækjum okkar, ásamt upplýsingum um þig frá þriðju aðilum, til að:

● veita þér aðgang að Google Payments í þjónustuskyni

● koma í veg fyrir skaða á réttindum, eignum eða öryggi Google, notenda okkar eða almennings sem og til að koma í veg fyrir svik, vefveiðar eða annað misferli

● aðstoða þriðja aðila við að veita þær vörur eða þjónustu sem þú biður þá um

● fara yfir Google-greiðsluprófílinn þinn til að ákvarða hvort þú uppfyllir skilmála þjónustuskilmálanna

● taka ákvarðanir um Google Payments-færslurnar þínar í framtíðinni

● smíða og þjálfa svikaáhættulíkan með eldri og núverandi upplýsingum og búa til svikaáhættueinkunnir og -mat sem deilt er með þriðju aðilum, eingöngu í svika- og misnotkunarvarnarskyni

● veita þér upplýsingar um eiginleika og fríðindi greiðslumátans til að hjálpa þér að bera kennsl á greiðslumátann þegar þú notar Google Payments

● uppfylla aðrar lögmætar viðskiptaþarfir sem tengjast Google Payments-færslum sem þú stofnar til

Verið getur að við varðveitum upplýsingar sem þú veitir meðan á notkun þinni á Google Payments stendur og lengur ef þörf þykir til að fylgja lögbundnum skyldum okkar.

Upplýsingar sem við deilum

Við munum eingöngu deila persónuupplýsingunum þínum með öðrum fyrirtækjum eða einstaklingum utan Google í eftirfarandi tilfellum:

● Eins og persónuverndarstefna Google leyfir

● Eins og lög leyfa

● Eins og nauðsyn krefur til að vinna úr færslunni og viðhalda reikningnum þínum, þar á meðal til að bæta öryggi, verja reikninginn þinn gegn svikum og til að stunda almennan rekstur

● Til að ljúka umbeðinni skráningu fyrir þjónustu hjá þriðja aðila

● Til að tilkynna söluaðila sem á vefsvæði eða forrit sem þú hefur farið á hvort þú sért með Google-greiðsluprófíl sem hægt er að nota til að greiða í gegnum viðkomandi vefsvæði eða forrit. Þú getur valið að slökkva á þessari stillingu.

● Til að deila svikaáhættueinkunnum og öðru svikamati með þriðju aðilum sem nota áhættueinkunn og svikavarnarþjónustu Google til að vernda færslur þínar til þriðju aðila gegn svikum og misnotkun

● Til að tryggja að greiðslumátinn þinn sé öruggur og í gildi og til að veita þér viðeigandi upplýsingar um eiginleika og fríðindi greiðslumátans deilum við hugsanlega persónuupplýsingunum þínum með útgefanda greiðslumátans, greiðsluneti, vinnsluaðilum og hlutdeildarfélögum þeirra

Dæmi um hvenær upplýsingum kann að vera deilt:

● Þegar þú kaupir eða greiðir með Google Payments látum við fyrirtækið eða einstaklinginn sem þú áttir viðskipti við fá ákveðnar upplýsingar um þig. Þetta felur í sér að deila persónuupplýsingum þínum með þróunaraðilanum sem þú verslar við þegar þú notar Google Payments á Google Play.

● Þegar þú kaupir á vefsvæði eða í forriti með Google Pay deilum við hugsanlega póstnúmerinu þínu og upplýsingum um greiðslumátann svo að söluaðilinn geti reiknað út skatt, sendingarkostnað og aðrar upplýsingar sem tengjast kostnaði pöntunarinnar (eins og afhendingarkostnað og aðrar verðupplýsingar), og til að auðkenna hvort söluaðilinn geti tekið við þeim greiðslumáta frá þér, og eins fríðindi eða takmarkanir fyrir tiltekinn greiðslumáta fyrir kaupin

● Þegar þú bætir greiðslumáta þriðja aðila við Google-greiðsluprófílinn þinn er hugsanlegt að við skiptumst á ákveðnum persónuupplýsingum með greiðsluveitandanum svo að báðir aðilar geti veitt þér þjónustuna. Þessar upplýsingar gætu verið nafnið þitt, prófílmynd, netfang, IP-tala, heimilisfang greiðanda, símanúmer, upplýsingar um tæki, staðfesting og upplýsingar um Google-reikningsvirkni.

● Þegar þú ferð á vefsvæði eða forrit þátttakandi söluaðila getur söluaðilinn kannað hvort þú sért með Google-greiðsluprófíl með gjaldgengum greiðslumáta sem hægt er að nota til að kaupa á vefsvæði eða í forriti söluaðilans. Það er gert til að draga úr líkum á að þú sjáir ónothæfa eiginleika á vefsvæðum eða í forritum.

● Þegar þú skiptir við þriðja aðila (eins og söluaðila og greiðsluþjónustuveitendur) sendum við þessum þriðju aðilum hugsanlega svikaáhættueinkunnir og annað svikamat sem tengist millifærslunni þinni, eingöngu í svika- og misnotkunarvarnarskyni

Þeim upplýsingum sem við söfnum, þar með talið upplýsingum sem við fáum frá þriðja aðila, er deilt meðal hlutdeildarfélaga, þ.e. annarra fyrirtækja í eigu og undir stjórn Google LLC. Hlutdeildarfélög okkar, sem geta verið fjármálafyrirtæki eða ekki, nota slíkar upplýsingar eins og lýst er í upplýsingum Google um persónuvernd og persónuverndarstefnu Google, þar á meðal í almennum viðskiptatilgangi.

Við gefum þér kost á að afþakka ákveðna upplýsingamiðlun milli GPC og dótturfélaga þess, ef við á. Sérstaklega skal tekið fram að þú getur afþakkað:

● að GPC og dótturfyrirtæki þess deili upplýsingum sín á milli um lánstraust þitt í almennum viðskiptatilgangi og/eða

● að hlutdeildarfélög okkar markaðssetji vörur sínar eða þjónustu til þín byggt á þeim persónuupplýsingum sem við söfnum og deilum með þeim. Þessar upplýsingar ná yfir reikningsferil þinn hjá okkur

Þú getur líka valið að afþakka að Google LLC eða hlutdeildarfélög þess upplýsi utanaðkomandi söluaðila, sem á vefsíðu eða forrit sem þú hefur farið á, um það hvort þú sért með Google-greiðsluprófíl sem hægt er að nota til að greiða á viðkomandi vefsíðu eða forriti.

Ef þú velur að afþakka verður val þitt virkt þar til þú lætur okkur vita að þú viljir breyta valinu.

Ef þú vilt ekki að við deilum persónuupplýsingum um lánstraust þitt milli GPC og hlutdeildarfélaga þess, eða ef þú vilt ekki að hlutdeildarfélög okkar noti persónuupplýsingarnar þínar sem við höfum safnað og deilt með þeim til að stunda markaðssetningu gagnvart þér eða ef þú vilt ekki að Google LLC eða hlutdeildarfélög þess upplýsi utanaðkomandi söluaðila, sem á vefsvæði eða forrit sem þú hefur farið á, um það hvort þú sért með Google-greiðsluprófíl skaltu tilgreina það með því að skrá þig inn á reikninginn þinn og fara í persónuverndarstillingar Google Payments og uppfæra val þitt.

Við munum ekki deila persónuupplýsingunum þínum með nokkrum aðila utan GPC né með hlutdeildarfélögum okkar nema eins og tilgreint er í þessari Persónuverndartilkynningu eða í Persónuverndarstefnu Google. Google Payments er vara sem er í boði fyrir Google-reikningshafa. Þau gögn sem þú veitir Google LLC til að stofna Google-reikning falla ekki undir afþökkunarákvæðin í þessari persónuverndartilkynningu.

Öryggi upplýsinganna þinna

Frekari upplýsingar um öryggisráðstafanir okkar má finna í aðalpersónuverndarstefnu Google.

Öryggi Google-greiðsluprófílsins þíns veltur á getu þinni til að halda aðgangsorði reikningsins, PIN-númeri og öðrum aðgangsupplýsingum fyrir þjónustuna leyndum:

● Ef þú deilir Google-reikningsupplýsingunum með þriðja aðila hefur hann aðgang að Google-greiðsluprófílnum þínum og persónuupplýsingum

● Það er á þína ábyrgð að stjórna aðgangi að snjalltækinu þínu og Google Payments-forritinu á tækinu þínu, þar með talið að halda aðgangsorðinu (aðgangsorðunum) og/eða PIN-númeri leyndu og ekki deila þeim með neinum

● Það er líka á þína ábyrgð að láta Google eða viðeigandi samstarfsaðila vita ef þú telur að öryggi upplýsinga í Google Payments-forritinu hafi verið stefnt í hættu

Allar upplýsingar sem þú gefur þriðju aðila söluaðila, vefsíðu eða forriti beint falla ekki undir þessar upplýsingar um persónuvernd. Við berum ekki ábyrgð á persónuvernd eða öryggisráðstöfunum þeirra söluaðila eða þriðju aðila sem þú velur að deila þínum persónuupplýsingum með beint. Við hvetjum þig til að skoða persónuverndarstefnu þeirra þriðju aðila sem þú velur að deila persónuupplýsingum þínum með beint.

© 2024 Google – Google Home Þjónustuskilmálar Google Fyrri persónuverndartilkynningar